Til atlögu við barnafjölskyldur
Ríkisstjórnin stefnir að því að afnema samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Tillaga þess efnis er í frumvarpi (svokölluðum bandormi) sem Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur mælt fyrir og er komið til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Verði þessi breyting að veruleika mun skattheimta aukast um 2,8 milljarða króna á ári. Um leið á að afnema heimild til að nýta hluta persónuafsláttar til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Það leiðir til um 600 milljóna króna aukinnar skattheimtu. Alls eru því ætlun ríkisstjórnarinnar að auka skattheimtu af tekjum einstaklinga um 3,4 milljarða á ári.
Það hefur lengi verið draumur „kerfisins“ embættismanna að afnema samsköttun hjóna undir því yfirskyni að um skattaívilnun sé að ræða og/eða að samsköttunin vinni gegn jafnrétti kynjanna. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur tvisvar á síðasta áratug hafnað tillögum í þessa átt og meirihluti þingsins einnig. En nú skal reynt aftur og líkur eru á því að breytingin nái fram að ganga að þessu sinni. Breytingin mun ekki síst bita á ungum barnafjölskyldum og grefur undan meginreglum sifjaréttar.
Í margþrepa skattkerfi er nauðsynlegt að heimila samsköttun hjóna/sambýlisfólks. Með afnámi samsköttunar verður innleidd alvarleg mismunun og skattbyrði vegna sömu tekna verður misjöfn eftir því hvernig tekjur skiptast á milli hjóna/sambýlinga. Slík mismunun gengur gegn jafnræðisreglu og raunar einnig öðrum reglum skatta- og sifjaréttar.
Margvíslegar ástæður geta legið að baki því að tekjuöflun hjóna eða annars samskattaðs fólks, sé mismunandi s.s vegna þess að annað þeirra:
- er í námi,
- er óvinnufært vegna sjúkleika eða fötlunar.
- er atvinnulaust.
- er í fæðingarorlofi.
- vill annast ung börn.
- annast fatlað eða langveikt barn.
- annast aldraða og sjúka foreldra.
Augljóst er að afnám samsköttunar mun gera það fjárhagslega erfitt (og jafnvel útilokað) fyrir annað hjóna að vera utan vinnumarkaðar að hluta eða öllu leiti, til að stunda nám, annast ung börn eða langveikt barn eða aldraða foreldra. Og þannig má lengi telja.
Því hefur verið haldið fram að sérsköttun hjóna sé meginregla sem samnýting skattþrepa gangi gegn. Þetta er rangt, sérsköttun launatekna er undantekning, samanber eftirtalið:
- Óskipt ábyrgð er á sköttum beggja hjóna
- Eignatekjur eru samskattaðar
- Eignir voru samskattaðar í tíð eignarskatts, þ.m.t. auðlegðarskatts
- Barnabætur skerðast af tekjum og eignum beggja
- Vaxtabætur skerðast af tekjum og eignum beggja
- Persónuafsláttur er millifæranlegur
Einnig er vert að hafa í huga að á hjónum hvílir gagnkvæm framfærsluskylda, auk framfærsluskyldu með börnum. Í 2. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 segir meðal annars:
„Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.
Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.“
Samnýting skattþrepa (millifærsla) er fyllilega rökrétt í skattalegu tilliti og í samræmi við reglur sifjaréttar um fjárfélag hjóna.
Verði tillögur um afnám samsköttunar samþykktar verður mikill munur á skattbyrði hjóna og annars samskattaðs fólks eftir því hvort tekjuskipting milli þeirra er jöfn eða ójöfn. Hámarksmunur skattbyrði kemur fram ef annað aflar allra teknanna.
Með hliðsjón af þessum staðreyndum á það að vera stefna allra hægri manna (ekki síst í margþrepa kerfi) að tryggja heimild til samsköttunar – og heimila millifærslu tekna hjóna/sambýlinga á milli allra þrepa. Aðeins þannig er jafnræði tryggt.
