Sýndarmennska og innihaldslausar yfirlýsingar ríkisstjórnar
„Það er orðið óþolandi að fylgjast með því hvernig íslensk samfélagsumræða hefur hrunið niður á plan þar sem rök skipta litlu en hroki, skítkast og yfirborðsleg sýndarmennska ráða ferðinni, skrifar Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, í pistli sem birtist á Visir.is: „Þegar stjórnmálamenn ná ekki að verja eigin ákvarðanir með staðreyndum, þá grípa þeir til persónuárása. Þetta er ekki lengur undantekning, þetta er orðið normið.“
Guðmundur hefur verið hreinskilinn í umræðum um stjórnmál síðustu mánuði og gagnrýnt ríkisstjórnina sérstaklega. Hann skipaði fjórða sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík norður árið 2021 en sagði skilið við flokkinn í aðdraganda alþingiskosninga 2024 vegna stefnuleysis flokksins í öllum málum. Í Facebook-færslu þegar hann tilkynnti um úrsögn sína úr Viðreisn skrifaði hann meðal annars:
„Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er, önnur en að segja það sem talið er að kjósendur vilji heyra til ná í atkvæði og komast í ráðherrastóla. En samt að segja ekki neitt um það hvað á að gera eða það eru engar raunhæfar lausnir til að setja fram.“
Í pistlinum á Visir.is sem er undir yfirskriftinni; „Þegar rökin þrjóta og ábyrgðarleysið tekur yfir – Hugleiðingar óflokksbundins einstaklings í byrjun árs 2026“, heldur Guðmundur því fram að í umræðum um veiðigjöld síðasta vor hafi þekkingarleysi meirihluta þingheims á málefnum sjávarútvegsins komið í ljós:
„Málið var illa undirbúið, illa rökstutt og í mörgum tilfellum byggt á misskilningi. Það skipti engu máli hvort fólk vildi hækka gjöldin eða ekki, málið var einfaldlega ekki unnið af þeirri fagmennsku sem svona stórt mál krefst. Þegar bent var á vankantana var ekki svarað með rökum heldur með árásum á þá sem gagnrýndu frumvarpið og auglýsingar SFS. Þannig vinnubrögð eru ekki til marks um styrk heldur veikleika. Þegar fólk getur ekki útskýrt eigin ákvarðanir þá er það ekki stjórnsýsla, það er stjórnleysi.“
Guðmundur segir að umræðan um veiðigjöldin hafi því miður ekki eina dæmið. Ríkisstjórnin hafi staðið illa að undirbúningi margra mála en brugðist sé við gagnrýni með því að ráðast á þann sem gagnrýnir í stað þess að svara efnislega.
„Það er eins og skortur á þekkingu og fagmennsku sé orðinn kerfisbundinn vandi. Nýjasta birtingarmyndin er sú að ráðherrar verja tugum milljóna í ráðgjafafyrirtæki til að fegra eigin málflutning, ekki til að færa rök fyrir málinu sjálfu, heldur til að bæta ímyndina. Það eitt og sér segir allt sem segja þarf.“
Guðmundur er harðorður í garð Flokks fólksins sem hann segir að mæti gagnrýni með ásökunum um falsfréttir og hótunum í garð fjölmiðla. Þá sé utanríkisráðherra að „þjóna þeim eina tilgangi að beina athyglinni frá þeim verkefnum sem bíða heima fyrir“:
„Í stað þess að svara þessum spurningum fáum við sýndarmennsku og innihaldslausar yfirlýsingar sem erfitt er að átta sig á og fáir hlusta á. Það eina sem þetta er að skila er ferðapunktasöfnun hjá ráðherranum og hennar fylgdarliði.“
Guðmundur segir að það sem valdi honum mestum áhyggjum sé að „þegar málefnaleg rök eru sett fram, þá eru ótrúlega margir tilbúnir að loka augunum fyrir staðreyndum“.
Guðmundur heldur því að ekki sé hægt að láta siðleysi, hroka og ábyrgðarleysi stjórna samfélagsumræðunni:
„Við verðum að krefjast heiðarleika, fagmennsku og raunhæfra lausna, ekki innihaldslausra frasa og popúlisma. Við verðum að raunveruleikatengja okkur og fara að viðurkenna að við getum ekki gert allt fyrir alla. Að allir eigi rétt á öllu án þess að við finnum hvernig á að fjármagna hlutina er umræða sem við verðum að taka. Ekki hlusta bara á það sem við viljum og þykir gott að heyra. Umræðan um réttindi og kröfur verður að fylgja umræðu um fjármögnun og forgangsröðun.“
Guðmundur segist hafa „kynnst mörgum heiðarlegum og hæfum einstaklingum í gegnum tíðina sem hafa orðið undir gagnvart þeim sem kunna aðeins eitt, að selja innihaldslausar hugmyndir og eigna sér síðan verk annarra. Það er sorglegt, og það er dýrt fyrir þjóðina“. Það verði að beina umræðunni að ábyrgð:
„Framtíð Íslands ræðst ekki af þeim sem tala hæst, heldur þeim sem þora að horfast í augu við staðreyndir og taka ábyrgð.“
