Stjórnar í ég-ein-veit-anda

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gefur ríkisstjórninni ekki háa einkunn í dagbókarfærslu 13. júní sl. Hann segir stjórnunarstíll Kristrúnar Frostadóttur vera í „ég-ein-veit-anda”.

Hann skrifar meðal annars:

“Ríkisstjórnin fagnar bráðlega sex mánaða afmæli sínu. Við blasir að á þessum mánuðum hefur stjórnarforystunni tekist að setja sand í tannhjól atvinnulífsins og hökta nú ýmsar greinar þess eða búa sig undir stöðnun og síðan samdrátt. Kyrking hagvaxtarins er í anda fyrri vinstri stjórna sem telja hækkun skatta bestu leiðina til hagvaxtar þótt öll reynsla sýni að skatttekjur ríkissjóðs vaxa með vaxandi umsvifum atvinnulífsins í skjóli hóflegra skatta.

Firring ráðherranna hefur magnast jafnt og þétt á þeim mánuðum sem þeir hafa setið í embætti og má til dæmis nefna umræður um 5,6% boðaða launahækkun alþingismanna og æðstu ráðamanna.

Fyrir nokkrum dögum (5. júní) sagði samfylkingarmaðurinn Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, við ríkisútvarpið að hann vænti þess að ríkisstjórnin og meirihluti hennar sæi til þess að hækkunin næði ekki fram að ganga „vegna þess að meginþorri þjóðarinnar er að taka 3,5% launahækkun,“ sagði Finnbjörn. Gripi stjórnin ekki inn í málið hélt Finnbjörn „að þessi góði byr sem er núna með ríkisstjórninni myndi kannski laskast eitthvað við þetta“. Honum þætti „skynsamlegt af ríkisstjórninni að hún breytti þessu og myndi fara í sama far og almenningur“.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra blés á slík sjónarmið í ræðu á alþingi 10. júní og sagðist kannski ræða þetta við Finnbjörn og félaga í ágúst eftir launahækkunina. Það hefur skýrst að Kristrún stjórnar í ég-ein-veit-anda.”