Stefnir í 58 milljarða halla á ríkissjóði

Líklegt er að afkoma ríkissjóðs verði mun verri á þessu ári en ríkisstjórnin stefnir að samkvæmt fjárlögum 2026. Konráð Guðjónsson, hagfræðingur og efnahagsráðgjafi síðustu ríkisstjórnar telur að líklegt sé að hallinn á þessu ári verði um 58 milljarðar eða 30 milljörðum meiri en gengið er út frá í fjárlögum sem samþykkt voru fyrir jól.

Þetta kemur fram í Kontext, fréttabréfi sem Konráð gefur út og hægt er að lesa á vefsíðu hans og gerast áskrifandi án kostnaðar. Konráð segir það augljóst að tímabil hægagangs og efnahagsþrenginga sé hafið þar sem störfum fækkar og atvinnuleysi eykst:

„Eins og stendur er líklegast að um lítilsháttar niðursveiflu eða hægagang verði að ræða frekar en kreppu. Þar sem botninn hefur ekki enn sést má þó ekki útiloka að atvinnuástandið eigi eftir að versna töluvert meira áður en það byrjar að batna.“

Konráð bendir á að fjárlögin byggi á 1,8% hagvaxtarspá Hagstofunnar og reiknað sé með að atvinnuleysi aukist lítið sem ekkert, sem hljóti að teljast frekar bjartsýnt:

„Til viðbótar er almennur varasjóður kominn niður í lögbundið lágmark sem hefur ekki sést frá því að ný lög um opinber fjármál tóku gildi árið 2016. Þá voru síðustu fjáraukalög óvenju stór og sumar forsendur virðast hæpnar, til dæmis að hækkun vörugjalda á ökutæki skili sér í þeim mæli sem gert er ráð fyrir.“

Þegar staða efnahagsmála og að með spá Seðlabankans um efnahagsþróun í huga er niðurstaða Konráðs að það líklegt sé að hallinn á ríkissjóði verði 58 milljarðar á þessu ári, eins og sést á meðfylgjandi mynd.