Ríkisútvarpið fest í setti
Hafi einhver borið þá von í brjósti að spilin á íslenskum fjölmiðlamarkaði yrðu raunverulega stokkuð upp með sérstakri aðgerðaráætlun menningarmálaráðherra, hefur sá hinn sami orðið fyrir miklum vonbrigðum. Tillögur ráðherra undir hatti aðgerðaráætlunar í málefnum fjölmiðla, sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum, taka mið af því að fyrst skuli staðið vörð um Ríkisútvarpið og síðan reynt að styðja við sjálfstæða fjölmiðla en þá aðeins með því að gera þá enn háðari ríkisvaldinu en þeir eru þegar. Og ekki nóg með það: Frjálsir fjölmiðlar verða beint háðir Ríkisútvarpinu. Verði tillögurnar að veruleika verður staða Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði tryggð um ókomin ár og tal um sjálfstæða og frjálsa fjölmiðla verður æ ótrúverðugara. Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar er til umfjöllunar í nýjasta þætti Alltaf til hægri.
Ekki er efast um að baki tillögum menningarmálaráðherra búi raunverulegur vilji til að tryggja betur rekstrargrunn sjálfstæðra fjölmiðla. Vandi hans, eins og raunar allra stjórnarþingmanna og a.m.k. hluta þingmanna stjórnarandstöðunnar, er sú einlæga sannfæring að íslenska þjóðin komist ekki af án ríkisrekins fjölmiðlafyrirtækis.
