Múrar haftabúskapar

Eftir að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga lauk með stofnun lýðveldisins árið 1944, hafa atvinnufrelsi, réttindi einstaklinga, forræðishyggja og haftakerfi verið þungamiðja í pólitískum átökum.

Íslenskt samfélag var gegnsýrt af opinberum afskiptum, ríkisrekstri og höftum. Innflutningur var takmarkaður og háðum leyfum, gjaldeyrisviðskipti voru háð ströngum skilyrðum, verðlagshöft voru meginregla. Nýsköpun og frjáls samkeppni voru fjarlægir draumar þeirra sem töldu að forsenda fyrir pólitísku sjálfstæði sé efnahagslegt sjálfstæði og að efnahagslegt sjálfstæði næðist aldrei án frjálsræðis í viðskiptum.

Haftabúskapurinn skekkti allt hagrænt umhverfi og brenglaði allar ákvarðanir jafnt fyrirtækja sem einstaklinga. Verðbólga var fylgifiskur ofstjórnar og launafólk greiddi fyrir með verri lífskjörum. Fjármálakerfið var undir pólitískri stjórn. Aðgengi að lánfé og erlendum gjaldeyri var takmarkað og fyrst og síðast úthlutað á grunni pólitískrar tengsla. Samþætting stjórnmála, viðskiptalífs og efnahagsmála, eitraði allt samfélagið. Haftabúskapurinn átti sér varla hliðstöður utan ráðstjórnarríkja kommúnista.

Múrar haftabúskapar hrundu ekki af sjálfu sér. Verslunarfrelsi fékkst ekki án átaka. Innflutningsskrifstofa ríkisins, sem útdeildi leyfum til innflutnings, var ekki lögð niður fyrr en í fulla hnefana. Það þurfti margar og ítrekaðar tilraunir til að tryggja frelsi á öldum ljósvakans – afnám einokunar ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri mætti harðri andstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn einn stóð einhuga að því að leyfa vindum frelsis að leika um útvarp og sjónvarp. Það þurfi einbeittan vilja til að brjóta einokun ríkisins á fjarskiptamarkaði á bak aftur og innleiða samkeppni. Viðskiptavinir öldurhúsa yrðu enn að gera sér það að góðu að drekka bjórlíki og litil sjálfstæð brugghús væru ekki til. Gjaldeyrir væri enn skammtaður og aðgengi að lánsfé í formi pólitískrar fyrirgreiðslu og sambanda. Greiðslukort væru aðeins fyrir hina útvöldu – æðstu embættismenn og nokkra forstjóra stærstu fyrirtækjanna sem yrðu þó að sætta sig við að undir vökulu auga gjaldeyriseftirlits Seðlabankans.