Kjarkur gefur súrefni

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur alltaf talað með skýrum hætti um það að forsenda fyrir þátttöku Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sé að árangur náist fyrir fólkið í landinu. Ríkisstjórn sem hafi ekki burði til að sinna mikilvægum verkefnum og ná árangri hafi misst erindi sitt. Samsteypustjórn þar sem minnsti og veikasti flokkurinn hendir öllum málamiðlunum út um gluggann og setur samverkaflokkum stólinn fyrir dyrnar nær aldrei árangri.

Í bréfi til sjálfstæðisfólks síðastliðinn sunnudag rekur Bjarni ástæður þess að hann ákvað að binda enda á ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Þar segir hann að ríkisstjórn verði „að geta sammælst um trausta forystu í stærstu málum hvers tíma“. Hann tekur fram að málamiðlanir séu eðlilegar í ríkisstjórnarsamstarfi en það séu „mörk í hve miklum mæli má miðla málum“:

„Ég lít svo á að ég væri að bregðast sjálfum mér, flokksmönnum og landsmönnum öllum með því að þykjast geta áfram leitt ríkisstjórnina og þannig klárað verkefni sem við höfum haft á dagskrá, en ég sé ekki fram á að við náum niðurstöðu um. Þess vegna taldi ég að lokum ekki annan kost í stöðunni en að leggja framhaldið í dóm kjósenda, þar sem við munum tala fyrir þeirri stefnu sem skilað hefur íslensku samfélagi mestum árangri í áranna rás.“

Herkvaðning

Í áðurnefndu bréfi bendir Bjarni Benediktsson á að á grunni hugsjóna Sjálfstæðisflokksins hafi tekist að byggja upp á Íslandi eitt mesta velmegunarríki heims. Það sé skylda sjálfstæðismanna að stuðla að stórstígum framförum fyrir komandi kynslóðir á grunni sömu hugsjóna og gilda. Herkvaðning Bjarna til flokksmanna er skýr en einföld. Nú þurfi að þétta raðirnar og blása til sóknar. Kosningabaráttan verði stutt en snörp en valkostirnir skýrir: „Annars vegar vinstri stjórn, stóraukin útgjöld, sóun sameiginlegra fjármuna, hærri skattar og aukin skuldsetning. Hins vegar öflugur Sjálfstæðisflokkur sem getur leitt þjóðina inn í nýja tíma framfara og bættra lífskjara með frelsi einstaklingsins og athafnafrelsi að leiðarljósi.“

Íslendingar þekkja af áratuga reynslu að þegar vindar sjálfstæðisstefnunnar eru í seglum „eru möguleikar okkar Íslendinga meiri og betri en flestra annarra þjóða“.

Ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að binda enda á samstarf þeirra þriggja flokka sem hafa starfað saman í sjö ár var ekki aðeins skynsamleg og eðlileg, heldur sú eina rétta með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Þannig tók formaður Sjálfstæðisflokksins hagsmuni almennings fram yfir sérhyggju og þrönga hagsmuni ríkisstjórnar sem smáflokkur reyndi að taka í gíslingu. Eftir stendur formaður flokks sem er í dauðateygjum, sár, svekktur, fúll og undrandi á að hagsmunir almennings gangi framar öllu öðru.

Með ákvörðun sinni hefur Bjarni Benediktsson undirstrikað að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki til fyrir sjálfan sig heldur myndaður um hugsjónir sem hafa skilað árangri og knúið framfarir sem hafa gert Ísland að fyrirmynd annarra þjóða. Hvorki vinstri menn eða pólitískir lukkuriddarar lýðhyggjunnar skilja þessi einföldu sannindi. Ekki frekar en að þeir átti sig á þeim styrkleika sem í þeim felst fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Pólitískt hugrekki

Bjarni Benediktsson hefur sýnt pólitískt hugrekki. Og hugrekki er smitandi – gefur sjálfstæðisfólki um allt land aukið pólitískt og hugmyndafræðilegt sjálfstraust, sem er forsenda fyrir árangri í kosningum. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að verða vitni að því hvernig pólitískt súrefni hefur fengið að streyma óhindrað um æðar Sjálfstæðisflokksins um allt land.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins geta því gengið fram af áræðni og sett hugmyndafræði og hugsjónir í forgang: sjálfstæði og fullveldi, atvinnufrelsi, frjáls utanríkisviðskipti, lægri skatta, öflugt velferðarkerfi, endurreisn grunnskólans og frelsi einstaklingsins. Skilaboðin verða að vera skýr. Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að stærsti hluti hagvaxtarauka komandi ára verði eftir í vösum launafólks og komið verði í veg fyrir að launahækkanir séu étnar upp með hækkun skatta og gjalda, eins og allir vinstri flokkarnir stefna að. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eiga að taka sér stöðu með sjálfstæða atvinnurekandanum og hindra þá aðför sem Samfylkingin hefur boðað gegn einyrkjum og litlum atvinnurekendum. Á öllum fundum og í öllum samtölum við kjósendur á að hljóma hátt og snjallt að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur atvinnulífsins. Blómlegt og arðsamt atvinnulíf stendur undir velferð samfélagsins. Og í nýrri sókn þurfa frambjóðendur að draga fram með skýrum hætti að Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur fjölskyldunnar í öllum sínum fjölbreytileika.

Kosningabaráttan sem er fram undan skapar Sjálfstæðisflokknum ný tækifæri. Það er undir frambjóðendum sjálfum komið hvort þeir nýta það súrefni sem þeir hafa fengið með ákvörðun Bjarna Benediktssonar.