Gjá milli forsætisráðherra og Viðreisnar

Skilaboð Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í nývarpsárinu voru skýr: „Höldum traustataki í sjálfstæði okkar og fullveldi.“ Ekki er hægt skilja þessi orð á annan veg en að forsætisráðherra standi gegn því að Ísland gangi til liðs við Evrópusambandið og muni því greiða atkvæði gegn því að hefja að nýju aðlögunarviðræður við sambandið, þegar efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu eins samið var um í stjórnarsáttmála Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Fyrir marga sem fylgst hafa með Kristrúnu frá því að hún steig inn á svið stjórnmálanna kemur þessi afstaða lítið á óvart. Kristrún virðist aldrei hafa verið sannfærð um ágæti þess að Ísland renni inn í Evrópusambandið. Í áramótaávarpinu talaði Kristrún hins vegar skýrar en áður:

„Það er lífsnauðsyn fyrir Ísland að villast ekki í ólgusjó. Látum hvorki glepjast af stundarhagsmunum né hrífumst með sviptivindum í stjórnmálum annarra ríkja en okkar eigin. Höldum sjó – höfum augun opin og gætum hagsmuna Íslands. Stöndum þétt með bandalagsríkjum en berjumst gegn hvers kyns tollum og viðskiptahindrunum sem bitna á íslensku atvinnulífi. Verum ávallt vakandi fyrir breytingum og tökum mið af þeim í okkar stefnu.“

Ávarp forsætisráðherra hefur varla vakið mikla kátínu meðal þingmanna og ráðherra Viðreisnar sem hafa lagt allt undir þegar kemur að Evrópusambandsaðild. Stóra lausn Viðreisnar, hvort heldur er í efnahagsmálum eða varnar- og öryggismálum, er og hefur verið aðild að Evrópusambandinu.

Um það verður ekki deilt að aðild að Evrópusambandinu klífur þjóðina í fylkingar. Í þessu ljósi eru orð forsætisráðherra í áramótaávarpinu sérlega athyglisverð en undir lok þess sagði Kristrún meðal annars:

„Gleðjumst þegar gengur vel og skemmtum ekki skrattanum með þarflausu sundurlyndi. Við getum verið ósammála og til þess eru stjórnmál í lýðræðisríki – að takast á og leita lausna. En ýkjum ekki ágreining og æsum ekki upp sundrungu að óþörfu.“

Augljóst er að pólitísk gjá er á milli foræstisráðherra og Viðreisnar og sú gjá hefur breikkað eftir að áramótaávarp forsætisráðherra.