Froðusnakkur, verðbólgukóngur og fegrunarpenni

Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að fólk sé að átta sig á því að það hafi verið haft að fíflum í síðustu alþingiskosningum. Fram undan séu ekkert nema skattahækkanir, niðurskurður, samdráttur, atvinnuleysi og önnur óáran.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Guðmundur að á sama tíma og ýmis óveðurský hrannist upp „í efnahagsmálunum, virðist það vera aðalmálið undanfarna daga hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins svaraði spurningu einhvers þáttastjórnanda um ráðamenn í Brussel hvort þeir væru glæpamenn“.

Á ritvöllinn hafi komið „Froðusnakkurinn (Flautaþyrilinn) Sigmar Guðmundsson, efnahagshryðjuverkamaðurinn ( Verðbólgu- og vaxtakóngurinn ) Dagur B. Eggertsson og Guðfaðir (Fegrunarpenni) Viðreisnar, Þorsteinn Pálsson, auka annarra stjórnarþingmanna að velta sér upp úr þessu“.

Guðmundur, sem skipaði 4. sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir kosningarnar 2021, segir að skrif þessara manna hafi öll verið sett fram „til að draga athyglina frá ástandinu hjá okkur í efnahagsmálunum, það ættu allir að sjá í gegnum það“. Tilgangurinn hafi verið sá að „draga athyglina frá getuleysi stjórnvalda, það voru engar lausnir, plön eða sleggja“ í stað þess að snúast um tillögur að „lausnum í okkar efnahagsmálum í rauntíma“:

„Þessir einstaklingar ættu frekar að velta sér upp úr þeim mikla óheiðarleika og siðleysi sem sett var fram fyrir síðustu kosningar þar sem logið var blygðunarlaust að kjósendum, af nægu er að taka þar.

Enda er óánægjan að magnast upp í samfélaginu eftir því sem fólk er betur að átta sig á því að það var haft að fíflum í síðustu alþingiskosningum.“

Guðmundur segir að Sigmar, Dagur B. og Þorsteinn mættu frekar skrifa greinar og það margar um „raunveruleikann sem blasir við, að fram undan er ekkert nema skattahækkanir, niðurskurður, samdráttur, atvinnuleysi og önnur óáran“.