Frasar og slagorð duga ekki

„Ríkisstjórnin hefur verið dugleg að slá um sig með frösum,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í dagbók 23. október sl. á heimasíðu sinni bjorn.is. Tilefnið var fátækleg svör Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á fyrr um daginn. Þar var hún krafin svara hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við alvarlegum fréttum um Norðurál, sem neyðist til vegna tæknibilana til að draga framleiðslu sína saman um tvo þriðju.

Björn minnti á að forsætisráðherra hafi gengið til kosninga fyrir tæpu ári með „planið“. Eftir kosningar hafi Kristrún myndað „verkstjórn“ en þingstörfin hafi farið í vaskinn á vorþingi:

„Þegar þing kom saman í haust var boðuð „tiltekt“ í nafni ríkisstjórnarinnar sem hefur hrakist af þeirri leið vegna verkefna sem koma stöðugt í fangið á ráðherrunum án þess að þeir fái því ráðið en krefjast samt úrlausnar.“

Og svo töluðu forystufólk ríkisstjórnarinnar fjálglega um að nú hæfist „verðmætasköpunarhaust“. En á því verður bið eins og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins benti á í ræðu á þingi deginum áður:

„Ríkisstjórnin þarf að svara því skýrt hvernig verði brugðist við þegar ný áföll dynja yfir; loðnuveiði er óviss, horfur í kolmunna og makríl eru daprar, kísilver PCC á Bakka er lokað tímabundið, um 600 manns hafa misst vinnuna eftir gjaldþrot Play og nú liggur hluti starfsemi Norðuráls niðri.“

Niðurstaða Björn er skýr:

„Verkefnin sem við blasa verða ekki leyst með frösum eða slagorðum. Á því tæpa ári sem Kristrún Frostadóttir hefur setið í embætti forsætisráðherra hlýtur hún að hafa áttað sig á því. Straumarnir í efnahags- og atvinnulífinu eru því miður of neikvæðir til þess að ríkisstjórnin komist hjá því að taka vandann í fangið og sýna hvað í henni býr.“