Fellir Úkranía meirihluta repúblikana?
Meirihluti Repúblikana á þingi getur verið í hættu ef Bandaríkin sitja hjá og leyfa Pútín að halda áfram stríðsrekstri gegn Úkraínu. Þetta er niðurstaða fréttaskýringar National Review, [NR] sem er áhrifamikið fréttarit og málgagn hægri manna. Í nóvember á komandi ári verða kosningar til fulltrúadeildarinnar. Um þriðjungur sæta í öldungadeildinni er einnig undir í kosningunum. Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum, en sá meirihluti er í hættu. Falli meirihlutinn mun það hafa veruleg áhrif á möguleika Trumps til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd.
Viðhorf repúblikana til Úkraínu og Rússlands hefur verið að breytast verulega samkvæmt skoðanakönnunum. Á síðustu sex mánuðum hefur hlutfall repúblikana sem vilja að Bandaríkin veiti Úkraínu meiri hernaðaraðstoð aukist um 21 prósentustig. Meirihluti kjósenda Demókrata- og Repúblikanaflokksins er hlynntur meiri stuðningi við Úkraínu í varnarstríðinu gegn innrásarher Rússlands. Um það bil 75 prósent kjósenda beggja flokka er hlynnt auknum viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi. Færri en 10 prósent bandarískra kjósenda eru jákvæðir í garð Vladímírs Pútíns, en yfir 60 prósent eru jákvæð í garð Volodymyr Zelenskys, forseta Úkraínu.
Aukin stuðningur meðal almennings í Bandaríkjunum við Úkraínu er athyglisverður í ljósi þeirra miklu fjármuna sem rússnesk stjórnvöld verja í áróðursstríð gegn Bandaríkjunum og öðrum Vesturlöndum. Samkvæmt NR eyða Kremlverjar um 1,2 milljörðum dollara á ári í áróðursstríð og þarf af beinist um helmingur gegn Bandaríkjunum. Og margir féllu fyrir áróðri Pútíns í upphafi. Tucker Carlson, hægri sinnaður þáttastjórnandi og Marjorie Taylor Greene, fulltrúadeildarþingkona repúblikana hafa varið Pútín og haldið því fram að hann sé friðarsinni og að innrásin í Úkraínu sé varnarstríð Rússa gegn árásargirni NATO. Málflutningur þeirra fellur hins vegar í sífelld grýttari jarðveg eftir því sem almenningur áttar sig betur á raunveruleikanum og hve samsæriskenningar eru fráleitar. Stríðsglæpir Rússa, þar á meðal skipulagðar nauðganir og pyntingar, umfangsmiklar sprengjuárásir á borgaralegar stofnanir og íbúðabyggð, fjarri hernaðarlegum mannvirkjum, hefur opnað augu margra innan Repúblikanaflokksins sem höfðu efasemdir um réttmæti þess að veita Úkraínu hernaðarstuðning. Úkraínski herinn, hefur vakið aðdáun fyrir þrautseigju og baráttuþrek gagnvart hernaðarmætti Rússlands. Nú er rússneski herinn hafður að háði og spotti: „Það sem eitt sinn var annar öflugasti her í heimi er nú annar öflugasti her Úkraínu.“
Hernaðurinn gegn Úkraínu hefur reynst Pútín og leppum hans dýrkeyptur, ekki aðeins efnahagslega heldur ekki síður hernaðarlega. Rússneski herinn hefur orðið fyrir miklu mannfalli og segir NR að nær 30 þúsund hafi fallið eða særst í ágúst síðastliðnum. NR heldur því fram að það sé sigur fyrir alla sem elska frelsi, lýðræði og réttaríkið þegar hernaðarmáttur eins helsta einræðisherra og andstæðings Vesturlanda verður veikari með hverjum mánuði. Veikari Pútín sé einnig áfangi í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Rússland hefur lengi verið einn helsti birgir verstu hryðjuverkasamtaka heims; Hezbollah, Hamas, Húta: „Veljið hvaða blóðþyrsta hryðjuverkahóp sem er og það er líklegt að Pútín og Kreml-mafía hans styðji hann, á einn eða annan hátt,“ skrifar NR. Langflestir Bandaríkjamanna hati hryðjuverkamenn. Það sé því ekki einum bandarískum stjórnmálamanni til framdráttar að taka ekki harða afstöðu gegn Pútín og yfirgangi hans.
NR hvetur leiðtoga Repúblikanaflokksins að snúa baki við „ný-einangrunarsinnum“ eins og Tucker Carlson og Marjorie Taylor Greene. Varnarstríð Úkraínu sé ekki „stríð Bidens og Zelenskys“ eins og Trump forseti fullyrti ranglega nýlega. Þetta sé stríð Vladimir Pútins, sem geti enda á stríðsreksturinn hvenær sem hann vill. Þrátt fyrir margra mánaða friðarviðleitni Trumps forseta sé ljóst að Pútín vilji ekki frið. Hann vilji Úkraínu alla. Og hann mun ekki láta staðar númið þar.
NR minnir á að það hafi kostnað heiminn yfir 50 milljónir mannslífa að standa ekki gegn Hitler á fjórða áratug síðustu aldar. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafi Repúblikanaflokkurinn leitt öfluga utanríkisstefnu Bandaríkjanna og komið í veg fyrir nýja heimsstyrjöld. Voru mistök gerð? Algjörlega. En „friður með veikleika“, eins og Joe Biden í Afganistan, er gullslegið boð um ofbeldi til fanta eins og Pútíns og Xi Jinpings frá Kína, sem og hryðjuverkamenn um allan heim. Flokkurinn sem viðheldur friði með styrk, ekki veikleika, er í miklu betri pólitískri – að ekki sé minnst á siðferðilega – stöðu.
