ESB hrifsar völdin af fullvalda ríkjum

Gunnar Pálsson, fyrrverandi sendiherra Íslands hjá Evrópusambandinu, [ESB] segir að sambandið hafa ratað í blindgötu. Frá því að Maastricht-samningurinn tók gildi hafi valdheimildir fullvalda ríkja verið fluttar til sameiginlegra stofnana, framkvæmdastjórnar, Evrópudómstólsins og Seðlabanka Evrópu.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. október heldur Gunnar því fram að ESB hafi á liðnum árum mistekist að standa undir væntingum sem við það voru bundnar um vaxandi velsæld aðildarríkja í skjóli Evrópusamrunans:

“Hagvöxtur, að meðaltali 6% fram undir síðustu aldamót, hefur smám saman staðnað og mælist nú um 1%. Iðnvæðing hefur tekið afturkipp, hægt hefur á framleiðni, en nýsköpun og tæknivæðing setið á hakanum. Ætti því ekki að koma á óvart að aðildarríkin hafi orðið eftirbátar samkeppnisaðila á heimsmörkuðum. Skuldir þeirra sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa vaxið og greiðslubyrði að sama skapi aukist. Þessi dökka mynd af framtíð evrópskrar samkeppnishæfni hefur ekki verið dregin upp af efasemdarmönnum Evrópusamrunans. Hana má m.a. finna í skýrslu Mario Draghis, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, frá í september í fyrra.”

Gunnar líkur grein sinni með eftirfarandi orðum:

“Hafi ESB ratað í blindgötu, hníga sterk rök að því að rekja megi það að einhverju leyti til hugmyndafræðilegs áttavita sambandsins frekar en ytri áfalla. Allt frá því Maastricht-samningurinn var gerður hafa valdheimildir fullvalda aðildarríkja í vaxandi mæli verið fluttar til sameiginlegra stofnana þess, framkvæmdastjórnar, Evrópudómstólsins og Seðlabanka Evrópu. Með vaxandi miðstýringu hefur jafnt og þétt dregið úr svigrúmi einstakra ríkja til að bregðast við aðstæðum, en nýbreytni og frumkvöðlastarf reyrt í viðjar íþyngjandi regluveldis og eftirlitsaðgerða. Áhrifin hafa ekki einskorðast við athafnalíf, réttarfar og gjaldmiðil, heldur koma þau nú einnig fram af vaxandi þunga í stjórnmálalífi, þ. á m. utanríkismálum.”