Ekki stjórnmálamaður
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Viðreisnar, segist ekki vera stjórnmálamaður. Þessu hélt ráðherrann fram á fundi Samtaka ferðarþjónustunnar (SAF) 11. desember sl. þar sem skattspor ferðaþjónustunnar var á dagskrá.
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF spurði Daða Má hvort að skortur á traustum innviðum sem nýtist ferðaþjónustunni sé sá að stjórnmálamenn hafi tekið ákvarðanir um að forgangsraða öðrum verkefnum þeim innviðaverkefnum sem að ferðaþjónustan þarf á að halda? Svar ráðherra vekur óneitanlega athygli. Hann sagðist ekki vera stjórnmálamaður heldur hafi hann verið ráðinn í þetta hlutverk – þ.e. embætti fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már hefur verið varaformaður Viðreisnar frá árinu 2020 og skipaði annað sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík suður fyrir kosningarnar 2021. Þar sem Viðreisn fékk aðeins einn mann kjörinn varð Daði Már varaþingmaður og tók fimm sinnum sæti á þingi á síðasta kjörtímabili. Fyrir kosningarnar á síðasta ári skipaði Daði Már heiðurssæti (22. sæti) á lista Viðreisnar en Jón Gnarr var í hans gamla sæti – 2. sæti.
