BBC í krísu – en hvað með RÚV?
Óli Björn Kárason
Breska ríkisútvarpið – BBC er í djúpri kreppu, eftir rökstuddar ásakanir um hlutdrægni, pólitískan rétttrúnað og fréttafalsanir hafa komið fram. Orðstír fréttastofu BBC, sem eitt sitt var talin fyrirmynd annarra fjölmiðla um vönduð vinnubrögð, er í húfi enda illa hægt að treysta því lengur að sem fréttamenn breska ríkisútvarpsins bera á borð sé byggt á staðreyndum og upplýsingaöflun og hlutlausum greiningum.
BBC, eða British Broadcasting Corporation, var stofnað árið 1922 og hefur frá upphafi verið burðarás í bresku samfélagi og fjölmiðlun. Stofnunin var sett á laggirnar með konunglegri skipun (Royal Charter) og hefur frá fyrstu tíð haft það hlutverk að þjóna almenningi með því að veita óhlutdrægar, áreiðanlegar og vandaðar fréttir, og framleiða menningar- og fræðsluþætti. Markmið BBC, eins og það var orðað af fyrsta útvarpsstjóra hennar, Lord Reith, var að „þjóna almannahagsmunum, þjóna öllum áhorfendum með því að veita hlutlaust, hágæða efni sem upplýsir, fræðir og skemmtir“.
BBC átti sem sagt að standa fyrir hlutleysi, fagmennsku og traust. Ekki ólíkt hugmyndafræði sem Ríkisútvarpið okkar hér á Íslandi er sagt byggja á.
BBC er fjármögnað með sérstökum afnotagjöldum (licence fee) sem allir sem horfa á sjónvarp í Bretlandi greiða. Með afnotagjöldum er reynt að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði og vernda BBC gegn pólitískum og viðskiptalegum þrýstingi.
Þrátt fyrir göfugt markmið hefur starfsemi BBC orðið sífellt umdeildari á síðustu árum og uppljóstrun um hreina fölsun fréttamanna í fréttaskýringaþættinum Panorama – flaggskip rannsóknarblaðamennsku ríkismiðilsins – er ein alvarlegasta ógnunin sem ríkismiðilinn hefur staðið frammi fyrir. Lögmæti þess að reka ríkismiðils er dregið alvarlega í efa.
Staðreyndafölsun
Viku fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári var fjallað um möguleika Donalds Trumps á að ná kjöri í annað sinn sem forseti. Í áðurnefndum fréttaskýringaþætti Panorama var sýnd klippa úr ræðu Trump frá 6. janúar 2021, þar sem tveir kaflar úr ræðunni voru klipptir saman þannig að svo virtist sem Trump væri að hvetja stuðningsmenn sína með beinum hætti til árásar á þinghúsið í Washington. Í raun voru þessi orð sögð með nærri klukkustundar millibili og sá hluti þar sem Trump hvatti stuðningsmenn sína til að láta rödd sína heyrast „friðsamlega og föðurlandslega“ („patriotic“) var klippt út.
Í minnisblaði sem Michael Prescott, fyrrverandi ráðgjafi hjá siðanefnd BBC, sendi stjórn BBC eru þessi vinnubrögð gagnrýnd harðlega. Prescott bendir á að með þessari klippingu hefði BBC í raun látið Trump segja hluti sem hann hefði aldrei sagt. Þannig hefði BBC „afbakað“ sannleikann – stundað falsfréttamennsku. Minnisblaðinu var lekið til Daily Telegraph og allt varð vitlaust enda minna blekkingar starfsmanna BBC fremur á vinnubrögð áróðursmeistara alræðis- og einræðisstjórna en heiðarlega og sanngjarna blaðamennsku þar sem sanngirni er gætt og sannleikanum ekki hagrætt í samræmi við skoðanir blaðamanna.
Rod Liddle, sem áður var þáttastjórnandi hjá BBC Radio 4 heldur því fram í nýlegum pistli í tímaritinu The Spectator, að ríkismiðilinn glími við tvö meginvandamál. Annars vegar séu starfsmenn með einsleitt viðhorf sem gerir þeim ókleift að átta sig á eigin fordómum og hve heimsmynd þeirra er þröngsýn. Og hins vegar hafi stjórnendur BBC orðið ónæmir fyrir allri gagnrýni og hundsi hana einfaldlega. Þeir fari í skotgrafir og haldi áfram að gera nákvæmlega það sama og áður, afskrifi allar athugasemdir sem illgirni og endurtaki möntruna: Við erum ekki hlutdrægir. Kannast einhver við þetta og reynslu okkar hér á Íslandi?
Í Bretlandi hafa stjórnmálamenn og áhrifamiklir fjölmiðlamenn kallað eftir uppstokkun á skipulagi BBC og einnig krafist afsagna, en aðeins Tim Davie útvarpsstjóri og Deborah Turness yfirmaður fréttasviðs BBC hafa sagt af sér í kjölfar þessa hneykslis. Enginn dagskrárgerðarmaður Panorama hefur sagt upp störfum og engum hefur verið sagt upp.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað BBC málsókn upp á einn milljarð dollara. BBC hefur beðið forsetann afsökunar en það virðist ekki ætla að stöðva málsóknina.
Djúpstæður kerfilægur vandi
Vandi BBC er hins vegar djúpstæðari en fölsun í einum fréttaskýringaþætti. Panorama-málið er aðeins toppurinn á ísjakanum. Í minnisblaði Prescotts og í fjölmiðlaumfjöllun síðustu ára hafa komið fram fjölmargar aðrar ásakanir um hlutdrægni, rangar fréttir og mistök sem starfsmenn BBC virðast eiga erfitt með að leiðrétta. Allt hefur þetta grafið undan trausti til BBC.
Nokkur dæmi:
- Í febrúar 2025 sýndi BBC heimildarmynd um börn í stríðinu í Gaza. Síðar kom í ljós að sögumaður myndarinnar er sonur háttsetts foringja í Hamas-hryðjuverkasamtökunum, (sem BBC neitar raunar að kalla hryðjuverkasamtök). Breska fjölmiðlaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að þetta hefði verið „alvarlegt brot á reglum um hlutleysi og gagnsæi“. BBC fékk áminningu og þurfti að biðjast afsökunar.
- Prescott og CAMERA, sem heldur úti ítarlegri vöktun á fréttum fjölmiðla, hafa bent á að BBC Arabic hafi ítrekað gefið rými fyrir einstaklinga sem hafa haldið fram andgyðinglegum skoðunum og hvatt til ofbeldis gegn Ísrael. Einnig hafi BBC Arabic dregið taum Hamas. BBC Arabic hefur þurft að leiðrétta um 215 fréttir um stríðið á Gaza frá október 2023 vegna þess að þær reyndust vera „hlutdrægar, ónákvæmar eða villandi“. Þetta jafngildir að meðaltali um tvær fréttir á viku.
- Jeremy Bowen, ritstjóri alþjóðafrétta BBC, hélt því fram, án fyrirvara, að flugher Ísraels hefði jafnað við jörðu spítala á Gaza í október 2023. Þetta var rangt því í ljós kom að sprengja frá Hamas hafði lent á bílastæði hjá spítalanum. Bowen viðurkenndi síðar að hann hefði farið rangt með staðreyndir. „Nei, ég sé ekki eftir neinu í fréttaflutningi mínum, því ég tel mig hafa sýnt yfirvegun í gegnum allt ferlið og ég dró engar ályktanir í flýti,“ sagði Bowen mánuði síðar í þættinum „Behind the Stories“ (Bak við fréttina) á BBC. Þegar spyrillinn bendir á að Bowen hafi ranglega greint frá því að spítalabyggingin hefði verið jöfnuð við jörðu sagði hann: „Ó, já, ég hafði rangt fyrir mér með það.“
Hann bætti við:
„Ég var að skoða myndirnar og það sem ég sá var ferningur sem virtist loga á alla kanta og það var eins konar tóm í miðjunni. Ég held að þetta hafi verið mynd tekin úr dróna og því, þú veist… urðum við að púsla saman því sem við sáum. Og ég hugsaði með mér, jæja, þetta lítur út fyrir að öll byggingin sé farin. Það var mín ályktun eftir að hafa skoðað myndirnar og ég hafði rangt fyrir mér með það.“
„En mér líður ekkert sérstaklega illa yfir því,“ bætir hann við. - Huw Edwards-málið: Huw Edwards, einn þekktasti fréttamaður BBC, var í júlí 2023 ákærður fyrir að hafa átt í óviðeigandi samskiptum við ungmenni og síðar dæmdur fyrir vörslu barnaníðsefnis. BBC var gagnrýnt fyrir að hafa leyft honum að starfa áfram í nokkra mánuði eftir að stjórnendur vissu af málinu, sem olli mikilli reiði almennings.
- Í júní á þessu ári sýndi BBC beint frá tónleikum þar sem rapparinn Bob Vylan hrópaði „death, death to the IDF“ og „f***ing Zionists“. BBC baðst afsökunar og viðurkenndi að þetta hefði sýnt dómgreinarskort frá hendi þeirra sem stjórnuðu útsendingu.
- BBC Verify, sem átti að vera flaggskip stofnunarinnar í staðreyndavöktun, birti rangar fréttir um að tryggingafélög væru kerfisbundið að mismuna fólki eftir kynþætti. Rannsókn leiddi í ljós að gögnin voru úrelt og niðurstöðurnar rangar. Enginn var rekinn eða dreginn til ábyrgðar.
- Og BBC heldur rétttrúnaði á lofti ekki síst þegar kemur að skilgreiningu á kynjum . Martine Croxall, reyndur fréttamaður og einn af aðalfréttakonum BBC, var að lesa frétt um rannsókn á áhrifum hitabylgju á heilsu fólks í Bretlandi, lenti í vandræðum. Í upprunalegum fréttatexta, sem byggði á tilkynningu frá London School of Hygiene & Tropical Medicine, var notað orðalagið „pregnant people“ (ólétt fólk). Croxall, sem las fréttina í beinni útsendingu, breytti orðalaginu með eftirfarandi hætti: „Malcolm Mistry, sem tók þátt í rannsókninni, segir að aldraðir, barnshafandi einstaklingar… konur… og þeir sem glíma við undirliggjandi heilsuvanda þurfi að gæta varúðar.“ Hún lagði sérstaka áherslu á orðið „konur“.
Þegar málið var tekið fyrir af kvörtunarnefnd BBC (ECU), var komist að þeirri niðurstöðu að Croxall hefði brotið gegn hlutleysisreglum BBC með bæði orðavalinu og svipbrigðum sínum. ECU taldi að þessi framkoma gæfi áhorfendum sterklega til kynna að hún væri að tjá persónulega skoðun í umdeildu samfélagsmáli, þ.e. umræðu um kynvitund og orðræðu tengda transfólki.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi af fjölmörgum sem hafa komið upp á síðustu árum þar sem BBC hefur viðhaft óvönduð vinnubrögð, hlutdrægni, og flutt villandi og rangar fréttir auk stjórnskipulags þar sem ekki er tekið á alvarlegum og refsiverðum brotum starfsmanna fyrr en seint og um síðir.
Glatað hlutleysi
BBC er sakað um hafa glatað hlutleysi sínu og orðið háð pólitískri hugmyndafræði rétttrúnaðar og vinstri sannaðrar hugmyndafræði. Gagnrýni kemur úr öllum áttum, m.a. frá fyrrverandi starfsmönnum BBC. Gagnrýnendur segja að BBC hafi þróast í vettvang menningarstríðs og pólitískrar skautunar.
Á níunda og tíunda áratugnum sýndu mælingar að yfir 70% Breta treystu BBC til að segja sannleikann í fréttum. Árið 1999 treystu 77% Breta BBC, sem var hæsta hlutfall allra fjölmiðla í landinu. BBC var talin hlutlaus fréttastofa, fagleg og óháð stjórnmálum og naut trausts bæði frá hægri og vinstri vængnum, þó að gagnrýni kæmi af og til frá stjórnmálamönnum sem töldu hallað á sig og sína pólitískt.
Nýjustu rannsóknir sýna hins vegar að traust almennings til BBC hefur minnkað verulega og er orðið mjög pólitískt skautað. Það eru helst stuðningsmenn Frjálslynda flokksins sem segjast treysta BBC. Meðal hægrisinnaðra kjósenda hefur traustið hrunið, sérstaklega eftir Brexit og COVID-19. Minnst er það hjá stuðningsfólki Umbótaflokks Nigels Farage. – Reform.
Eitt af því sem Prescott gagnrýnir harðlega í minnisblaði sínu er að stjórnendur BBC hafi ítrekað hunsað eða dregið úr alvarleika ábendinga um brot á siðareglum og hlutleysi. Hann segir að „viðbrögð stjórnenda við alvarlegum og kerfisbundnum vandamálum séu orðin kerfisbundið vandamál í sjálfu sér“.
Þegar Panorama-málið kom upp var tilbúin afsökunarbeiðni frá fréttastjórn en stjórn BBC ákvað að birta hana ekki strax. Þar með skapaðist tómarúm þar sem gagnrýnin jókst og traustið minnkaði. Prescott segir að þetta sé dæmi um „stofnanalega lömun“.
Eftir að Tim Davie og Deborah Turness sögðu af sér sendi stjórnarformaður BBC bréf til þingmanna þar sem hann baðst afsökunar á „dómgreindarbresti“ en hafnaði því að BBC væri kerfisbundið hlutdræg. Danny Cohen, fyrrverandi yfirmaður BBC sjónvarps, segir hins vegar að minnisblað Prescotts leiði í ljós „kerfisbundna hlutdrægni og mistök“ hjá BBC.
CAMERA, samtök sem fylgjast með fjölmiðlaumfjöllun, telja að minnisblaðið staðfesti „kerfisbundna hlutdrægni, staðreyndavillur og siðferðisbresti“ hjá BBC Arabic og hafa kallað eftir þingrannsókn.
Hvað geta Íslendingar lært af BBC?
Saga BBC er saga um traust, hlutleysi og lýðræðislega umræðu – en einnig saga um hvernig ríkisfyrirtæki grefur undan sjálfu sér og fórnar trúverðugleika og trausti á altari pólitískrar hugmyndabaráttu starfsmanna sem sjá ekki bjálkann í eigin augum. Þegar gagnsæi og siðferði víkja fyrir pólitískum markmiðum verður kostnaðurinn hár.
Traust er brothætt. Það er auðveldara að glata en öðlast traust. BBC þarf að horfast í augu við mistök og viðurkenna ásetningsbrot við fréttaflutning, endurskoða stjórnskipulag, efla fagmennsku og gagnsæi og hlusta bæði á almenning og starfsfólk. Aðeins þannig getur stofnunin endurheimt þá stöðu sem hún hafði sem „gullstaðall“ í fjölmiðlun, ekki aðeins í Bretlandi heldur um allan heim.
Spurningin er sú hvort og þá hvað við Íslendingar getum lært af þeim vandræðum sem BBC glímir við. Sá er hér talar hefur alltaf talið það ganga gegn hugmyndum um frelsi borgaranna og réttindum þeirra að ríkið taki að sér að sinna fréttaflutningi og reka fjölmiðil, skiptir engu hvort það er á öldum ljósvakans eða á prenti. Ríkisrekstur fjölmiðla gefur þeim sem þar vinna náttúrulegt skjól sem aðrir njóta ekki. Aðhald er hverfandi í samanburði við einkarekna fjölmiðla. Ef okkur mislíkar við frjálsa fjölmiðla segjum við upp áskriftinni, hættum að horfa eða hlusta og miðlarnir missa tekjur. En ef við erum ósátt við það sem ríkismiðillinn ber á borð fyrir okkur eigum við fárra kosta völ. Við neyðumst til að greiða útvarpsgjaldið, hvað sem tautar og raular. Sá sem er ósáttur við vinnubrögð eða stefnu ríkismiðilsins er áhrifalaus. Gagnrýni hans skiptir litlu, hefur engin áhrif enda getur hann ekki sagt upp viðskiptasambandi sínu við ríkismiðilinn með því að hætta að greiða áskriftina. Afleiðingin er sú að fáar, ef nokkrar, stofnanir samfélagsins búa við minna aðhald en Ríkisútvarpið hér á landi. Í aðhaldsleysinu hefur myndast þjóðfélagslegt tómarúm þar sem starfsemi lifir sjálfstæðu lífi óháð því sem gerist utan múra ríkismiðils. Staðan er ekki ósvipuð í Bretlandi.
Í Efstaleiti er litið svo á að dagskrárvald í þjóðfélagsumræðunni liggi og eigi að liggja hjá ríkismiðlinum. Hjá BBC er sama viðhorf. Ríkismiðlarnir ákveða hvaða mál séu sett á dagskrá og hver ekki, hvaða einstaklingar séu þess verðir að gegna æðstu embættum og hvaða álitsgjafa og sérfræðinga almenningur eigi að taka mark á, hvaða málstað eigi að taka í stríðsátökum eða umdeildum málum. Allt mótað af hugsunarhætti fólks sem hefur sömu heimsmynd – sannfært um eigin réttsýni og hlutleysi. Þeir sem eru þeim ekki sammála eru afgreiddir sem rugludallar og þröngsýnir öfgamenn sem eiga ekkert erindi við almenning. Stjórnmálamenn sem gera athugasemdir eru hundsaðir og forystufólk úr atvinnulífinu verður í skotlínu.
Hér á Íslandi er pólitískur raunveruleiki sá að yfirgnæfandi meirihluti þingmanna stendur vörð um Ríkisútvarpið og litlar líkur eru á því að það breytist á komandi árum. Ríkið mun halda áfram að reka fréttastofu á komandi árum. En þá er lágmarkskrafan að fagmennska og hlutleysi séu tryggð. Og þess vegna er nauðsynlegt að ráðast í sjálfstæða og hlutlausa úttekt á starfsemi fréttastofu RÚV. Slík úttekt myndi varpa ljósi á hvort ritstjórnarleg vinnubrögð standist fagleg viðmið og hvort fjölbreytni sjónarmiða sé tryggt í efnisvali og framsetningu frétta. Hvort fylgt sé reglum um sanngirni og hlutleysi og komið í veg fyrir að fréttir séu litaðar af persónulegum sjónarmiðum fréttamanna.
RÚV hefur ítrekað verið gagnrýnt fyrir að láta pólitísk markmið og hugmyndafræðileg slagsíðu lita fréttamat sitt. Svokallað byrlunarmál, þar sem fréttastofa ríkisins hefur verið sökuð um að komist yfir gögn með ólögmætum og saknæmum hætti, liggur eins og mara yfir stofnuninni sem gerir ekkert til að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Fréttaflutningur RÚV af hælisleitendamálum hefur verið gagnrýndur fyrir að líkjast fremur aðgerðasinnuðum málflutningi en hlutlausri fréttamennsku. Og það er eftirtektarvert að hve fréttastofan er allt í eigu orðin áhugalaus við að flytja fréttir af brottflutningi hælisleitenda nú þegar vinstri ríkisstjórn hefur tekið við völdum.
Fréttastofa ríkisins og yfirmenn Ríkisútvarpsins mæta gagnrýni annað hvort með þögninni eða jafnvel með því að fella úr gildi siðareglur stofnunarinnar eftir að augljóst var að starfsmenn hefðu gerst brotlegir gagnvart þeim.
Dæmin um gagnrýnina eru miklu fleiri en verða ekki tíunduð hér að þessu sinni. En ef menn halda að ekki sé pottur brotinn hjá Ríkisútvarpinu, að aðeins fréttastofa BBC – fréttastofa sem átti að vera fyrirmynd allra annarra fjölmiðlamiðla – glími við vandamál, lifa menn í meiri sjálfsblekkingu en ég hafði áttað mig á.
