Barátta um völdin í Samfylkingunni harðnar
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er greinilega staðráðin í því að herða tökin á flokknum og tryggja stöðu sína enn betur. Framboð Péturs Marteinssonar gegn Heiðu Björk Hilmisdóttur sitjandi borgarstjóra er hluti af valdabaráttu innan Samfylkingarinnar.
Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, sem var kjörinn þingmaður á liðnu ári, bíður færis á að taka við sem formaður flokksins. Hann telur sig eiga harm að hefna eftir framkomu Kristrúnar í kosningabaráttunni. Kristrún kom í veg fyrir að Dagur B. yrði oddviti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, líkt og hann sóttist eftir. Jóhann Páll Jóhannsson skipaði hins vegar fyrsta sætið í Reykjavík suður og sjálf tók Kristrún oddvitasætið í Reykjavík norður. Dagur B. Eggertsson var annar á listanum á eftir Kristrúnu, sem gaf það út að borgarstjórinn fyrrverandi væri aukaleikari og hvatti kjósanda í Grafarvogi til að strika nafn hans út í kjörklefanum. Í skilaboðum tók Kristrún fram að hún væri formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins:
„Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn.“
Kristrún sagðist skilja vel sjónarmið fólks sem vilji ekki hafa Dag B. Eggertsson og það liggi „beinast við að strika hann út í kjörklefanum“. Og síðar:
„Dagur stýrir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni.
Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar á samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það – hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni. Staða hans á listanum breytir engu um áherslur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borgin hefur gert.“
Um það verður ekki deilt að Dagur B. Eggertsson er einn reyndasti stjórnmálamaður landsins eftir að hafa setið í borgarstjórn í nær aldarfjórðung og verið borgarstjóri í áratug, auk þess að vera formaður borgarráðs í fimm ár samtals og oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn samfleytt í 19 ár. Alla þessa reynslu og þau pólitísku klókindi sem Dagur hefur sýnt með því að tryggja að Samfylkingin væri ráðandi afl í Reykjavík, þrátt fyrir ýmis áföll, virti Kristrún að vettugi og gott betur.
Það hefur verið opinbert leyndarmál að Kristrúnu Frostadóttur hefur verið umhugað um að tefla fram nýjum oddvita í borginni í kosningum næsta vor enda munu litlir kærleikar vera á milli hennar og Heiðu Bjarkar. Oddvitaefnið virðist fundið með framboði Péturs Marteinssonar.
Í hröðum heimi stjórnmála getur rétt tímasetning, gott samband við áhrifamikla fjölmiðla og heppni ráðið úrslitum. Það á eftir að koma í ljós hvort tímasetning Péturs Marteinssonar þegar hann tilkynnti um löngun sína að verða oddviti Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum hafi verið rétt. Fyrir liggur að Pétur nýtur velvilja í Efstaleiti. Og hann var heppinn því daginn áður en hann tilkynnti um framboð sem er til höfuðs Heiðu Björk Hilmisdóttur borgarstjóra var hún tekin fyrir í Áramótaskaupi Ríkisútvarpsins og niðurlægð sem pólitískur leiðtogi.
Augljóst er að Kristrún treystir tök sín innan Samfylkingarinnar verulega með því að Pétur skipi oddvitasætið. Að sama skapi mun staða Dags B. Eggertssonar veikjast og skiptir litlu þó samband hans og Péturs sé ágætt. Takist Heiðu Björk hins vegar að verjast atlögu Pétur verður það áfall fyrir flokksformanninn og forsætisráðherra. Hagsmunir „aukaleikarans“ liggja í því að koma í veg fyrir að maðurinn sem er talinn „krónprins“ í boði Kristrúnar verði ekki krýndur leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík.
