Aðeins einn hægri flokkur

Sigurður Kári Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafnar því að þrír hægri flokkar séu til á Íslandi, líkt og margir blaðamenn, stjórnmálafræðingar og álitsgjafar halda fram. Viðreisn sé vinstri flokkur og Miðflokkurinn sé miðflokkur, líkt og nafnið vísar til og formaður flokksins hefur sjálfur sagt. Eftir standi Sjálfstæðisflokkurinn sem eini hægri flokkurinn, sem þurfi hins vegar að taka til í sínum garði.

Í áramótafærslu á Facebook-síðu sinni segir Sigurður Kári að Viðreisn megi ekki sjá einhverja skatta án þess að hækka þá og hafi unnið gegn atvinnulífinu. Viðreisn hafi sýnt það í ríkisstjórn að flokkurinn er vinstri flokkur. Miðflokkurinn sé frekar framsóknarmenn á sterum en hægrimenn.

Viðreisn ekki valkostur hægri manna

Sigurður Kári bendir á að vinstri sinnuð hugmyndafræði Viðreisnar sjáist „best á því að þegar Viðreisn fékk tækifæri til að stýra ríkisfjármálum ákvað flokkurinn að hækka ríkisútgjöld um 143 milljarða án þess að nein utanaðkomandi áföll kölluðu á svo rosalega útgjaldaaukningu“.

Sigurður Kári heldur áfram:

„Og til að bíta höfuðið af skömminni hækkaði Viðreisn auk þess, í samstarfi við Samfylkinguna, skatta á fólk og fyrirtæki um 30 milljarða, þrátt fyrir skýr loforð um að gera það ekki. Í ljós hefur komið að Viðreisn má varla sjá skatt án þess að hækka hann.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar í stjórnmálafræðinni ef flokkar sem standa fyrir slíku teljast til hægri.

Það fólk sem trúði því að Viðreisn væri alþjóðasinnaður, „business friendly” stjórnmálaflokkur, og kaus hann út á það, hlýtur að hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum með framgöngu flokksins á árinu því það er ekki hægt að benda á neitt sem flokkurinn hefur gert til þess að efla atvinnulíf og verðmætasköpun í landinu. Þvert á móti hefur Viðreisn unnið gegn hagsmunum atvinnulífsins og fyritækjanna í landinu sem standa undir verðmætasköpuninni.“

Í huga Sigurðar Kára á Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra hrós skilið fyrir klókindi með því að „plata Viðreisn til að vinna öll þessi vondu verk, þvert á gefin loforð, og bera ábyrgð á þeim“. Afleiðing er sú að Viðreisn hefur misst fylgi á sama tíma og Samfylkingin ber engan pólitískan kostnað.

Framsókn á sterum

„Sigmundur Davíð segir sjálfur að Miðflokkurinn sé miðjuflokkur, eins og nafnið á flokknum ber augljóslega með sér,“ skrifar Sigurður Kári og bætir við:

„Í mínum huga eru Miðflokksmenn miklu frekar framsóknarmenn á sterum en hægrimenn, enda koma þeir flestir upphaflega úr Framsóknarflokknum, í bland við popúlista sem vill afla sér vinsælda með daðri við rasisma. Sumir Miðflokksmenn gengu reyndar lengra en að daðra bara á árinu heldur gengust fúslega við því að vera rasistar.

Sjálfur á ég í verulegum vandræðum með að átta mig á því hver framtíðarsýn Miðflokksins er.

Jú, Miðflokksmenn hafa skoðanir á því hverjir eiga að fara og hverjir mega vera hér og hvort RÚV eigi að þýða dagskrárefni yfir á pólsku og ensku eða ekki. Að öðru leyti eru þeir yfirleitt á móti málum fyrir kannski utan áherslumál á borð við að stofnuð verði Ábyrgðarverksmiðja ríkisins og ríkisrekið olíufélag. Að öðru leyti hefur sýn Miðflokksins á framtíðina verið fátækleg.“

Sigurður Kári segir framtíðarsýn eða fortíðarþrá Miðflokksins forpokaða:

„Þessi framtíðarsýn, eða fortíðarþrá, er forpokuð finnst mér. Hún lýsir frekar afturhaldi en uppbyggileg framtíðarsýn. Vanhugsaðari ”skynsemishyggju”, sem þeir kalla, sem ég sé ekki að samræmist hugmyndafræði sem byggir á aukinni verðmætasköpun, viðskiptafrelsi og framförum.“

Skýr hægri stefna í dauðafæri

Sigurður Kári heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé í dauðafæri til að auka fylgi sitt með hægra fólks. Flokkurinn sé hófstilltur hægriflokkur sem hafi „sameinað borgaralegt, hægrisinnað fólk og frjálshyggjumenn, þótt stundum hafi flokkurinn þótt færa sig of nálægt miðjunni að margra mati“. Flokkurinn eigi að vera sameiningarafl hægra fólks á Íslandi en hafi ekki tekist nægilega vel að sannfæra hægra fólk að flokkurinn sé sá valkostur sem það á mesta samleið með:

„Ég held að ef Sjálfstæðisflokkurinn vill ná eyrum þessa fólks aftur og ná fyrri styrk þá dugi ekki að leggja fyrst og fremst áherslu á gömlu gildin og slagorðið „stétt með stétt”.

Sjálfstæðismenn munu heldur ekki ná árangri með því að reyna að vera meiri Miðflokksmenn en Miðflokksmennirnir sjálfir eru.“

Sigurður Kári segir að ef Sjálfstæðisflokkurinn ætli að ná eyrum hægra fólks verði flokkurinn að bjóða upp á framtíðarsýn, skýrari hægristefnu og berjast fyrir henni:

„Sjálfstæðismenn þurfa að leggja fram útfærðar tillögur og útskýra hvernig þeir ætla að:

  • Minnka ríkisafskipti og draga úr ríkisútgjöldum.
  • Lækka skatta og draga úr álögur á fólk og fyrirtæki.
  • Bæta starfsumhverfi atvinnulífsins og auka verðmætasköpun.
  • Og auka einstaklingsfrelsi á öllum sviðum.“

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé í dauðafæri að afla sér aftur stuðnings hjá hægrafólki sem vill skýrar áherslur af þessu tagi.

Eitt er víst að núverandi stjórnarflokkar munu ekki leggja áherslu á þessi atriði það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Það mun Miðflokkurinn heldur ekki gera.“