Á hverfanda hveli

Framsóknarflokkurinn hefur allt fram á síðustu ár verið einn af burðarflokkum íslenskra stjórnmála, með djúpar rætur á landsbyggðinni og oft sterka stöðu á höfuðborgarsvæðinu. Margt bendir hins vegar til að blómatími flokksins, sem var stofnaður 1916, sé að baki og hann eigi erfitt með að ná vopnum sínum. Niðurstaða alþingiskosninga á síðasta ári var áfall enda var fylgið aldrei minna eða aðeins 7,8 prósent. Meðalfylgi Framsóknarflokksins frá stofnun er liðlega 21 prósent og 15,7 prósent í síðustu tíu kosningum frá 1995. Mest fylgi fékk Framsókn árið 1931 eða tæp 36 prósent.

Þrátt fyrir verstu útreið frá upphafi hefur Framsóknarflokknum ekki tekist að rétta úr klútnum frá þingkosningunum 2024. Þvert á móti hefur fremur hallað undan fæti. Samkvæmt Gallup var fylgið 5,8% í september og Maskína sýnir 6,5% fylgi í október. Fylgið mælist „í kringum mörkin á milli lífs og dauða þegar fylgið sveiflast á milli fjögurra og sex prósentustiga,“ svo vitnað sé til greinar sem Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, skrifaði í Morgunblaðið 16. október.

Allt fram að miðstjórnarfundi 18. október síðastliðnum var Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins ekki á því að rétt væri að skipta um mann í brúnni, þrátt fyrir dapurt gengi. Þvert á móti sagðist hann í samtali við Visir.is hafa fullan hug á því að halda áfram sem formaður:

„Skoðanakannanir á þessum tíma segja nú kannski ekki mikið um það hvernig kosningar fara, hvenær sem þær nú verða.“

„En það er alveg rétt að við höfum ekki notið mikils stuðnings eftir erfiðar kosningar í haust og þetta er ákall um að við séum enn skýrari og skarpari í stjórnarandstöðunni í að koma þeim sjónarmiðum á framfæri sem við stöndum fyrir og gagnrýna ríkisstjórnina, þar er alveg af nægu að taka en hljómgrunnur fyrir gagnrýni á hana hefur ekki verið mikill. Hún hefur haft mikinn stuðning í samfélaginu enn þá en ég er nú með fullar væntingar til þess að það verði aukinn hljómgrunnur þegar frá líður.“

En hlutirnir eru fljótir að breytast, ekki síst í stjórnmálum. Á miðstjórnarfundi 18. október sl. tilkynnti Sigurður Ingi að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri á flokksþingi sem haldið verður í febrúar á nýju ári. Augljóst er að hann hefur fundið að hann naut ekki lengur stuðnings margra áhrifamikilla aðila innan Framsóknarflokksins eins og áðurnefnd grein Guðna Ágústssonar ber merki og birtist tveimur dögum fyrir miðstjórnarfundinn:

„Helsærður flokkur fer ekki í átök um nýjan formann. Hann þarf sjálfur að þekkja sinn vitjunartíma. Og kannski er vandinn sem við blasir einmitt þar fólginn. Sigurður Ingi er í miklu verri stöðu en Ólafur Jóhannesson, Halldór Ásgrímsson, Jón Sigurðsson eða ég þegar við allir viðurkenndum flokkinn merkilegri en okkur sjálfa.“

Upphafsorð greinar Guðna lýsa ástandinu vel:

„Aldrei í 109 ára gamalli sögu sinni hefur Framsóknarflokkurinn staðið jafn vopnlaus og illa á sig kominn.“

Óhætt er að fullyrða að Sigurður Ingi hefði fengið mótframboð á flokksþinginu hefði hann reynt að ná endurkjöri. Öruggt má telja að harður slagur um formennsku hefði rifið flokkinn í sundur með svipuðum hætti þegar Sigurður Ingi sjálfur lagði til atlögu og felldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson úr formannstóli. Sárin sem rist voru á flokksþingi 2016 hafa aldrei gróið.

Hefð fyrir afsögn

Halda má því fram að með ákvörðun sinni um að láta af embætti formanns haldi Sigurður Ingi í heiðri ákveðna hefð í Framsóknarflokknum: Formaður axlar ábyrgð á lélegu gengi.

Þannig ákvað Halldór Ásgrímsson að láta af embætti formanns Framsóknarflokksins sumarið 2006 og í framhaldinu hætta í stjórnmálum. Halldór, sem þá var forsætisráðherra, sagðist með þessu vilja axla ábyrgð á lélegu gengi flokksins í sveitarstjórnarkosningum og skapa rúm fyrir nýtt fólk. Nokkru síðar tók Jón Sigurðsson, þá utan þings, við sæti iðnaðar- og viðskiptaráðherra samkvæmt tillögu Halldórs. Jón var svo kosinn formaður flokksins á flokksþingi í ágúst með 54 prósent atkvæða en Siv Friðleifsdóttir sem sóttist einnig eftir embættinu fékk 44 prósent. Guðni Ágústsson var endurkjörinn varaformaður með 61 prósent atkvæða en Jónína Bjartmarz fékk 36 prósent.

Jón sat hins vegar aðeins í níu mánuði í formannsstólnum en undir hans forystu fékk Framsóknarflokkurinn sína verstu útreið í kosningum, fram að þeim tíma, eða aðeins 11,7 prósent atkvæða. Jón náði ekki kjöri sem þingmaður. Í kjölfarið sagði Jón af sér, annars vegar til að taka ábyrgð á úrslitunum og hins vegar vegna þess að hann taldi ekki hægt fyrir formann stjórnmálaflokks að standa utan þings.

Guðni Ágústsson tók við sem formaður en sat ekki lengi því hann sagði af sér og lét af þingmennsku í nóvember 2008. Í bréfi til þingmanna flokksins sagði Guðni að vonir sínar um starfsfrið og einingu innan flokksins hafi „breyst í andhverfu sína“. Sátt innan Framsóknarflokksins, sem er nauðsynleg fyrir endurreisn hans, náist ekki án breytinga í forystu flokksins. Sáttin þoli enda bið:

„Með afsögn minni legg ég mitt af mörkum til að hraða því breytingaferli sem óhjákvæmilegt er til þess að Framsóknarflokkurinn nái að safna kröftum sínum á nýjan leik.“

Við formennsku tók Valgerður Sverrisdóttir, sem tók við sem varaformaður þegar Guðni settist í formannsstólinn. Hún gegndi embættinu fram að flokksþingi 2009 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður, þá nýliði í stjórnmálum.

Nýjum formanni tókst að sækja nokkuð fram kosningum vorið 2009 – þeim fyrstu eftir fall fjármálakerfisins – fylgið jókst í tæp 15 prósent.

Glæsilegur árangur

Árangur Framsóknar undir forystu Sigmundar Davíðs var glæsilegur í kosningum 2013. Flokkurinn fékk 24 prósent atkvæða og 19 þingmenn – jafnmarga og Sjálfstæðisflokkurinn sem var með 27 prósenta fylgi. Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Eftir harða og óvægna gagnrýni í tengslum við svokölluð Panamaskjöl, ákvað Sigmundur Davíð að stíga til hliðar sem forsætisráðherra í apríl 2016 og tók Sigurður Ingi við forsætisráðuneytinu. Sigmundur Davíð leit svo á að þetta væri tímabundin ráðstöfun en hann hafði raunar lagt til við forseta lýðveldisins að þing yrði rofið og boðað til kosninga. Því hafnaði forsetinn. Lilja Alfreðsdóttir, sem var utan þings, kom inn í ríkisstjórnina við fráhvarf Sigmundar Davíðs og tók við sem utanríkisráðherra.

Pólitískur órói hélt áfram þrátt fyrir þessar breytingar. Stjórnarflokkarnir töldu skynsamlegt að boða til kosninga áður en kjörtímabilið væri úti og fóru þær fram í lok nóvember 2016. Áður en gengið var að kjörborði voru Framsóknarmenn boðaðir til flokksþings í byrjun október. Þar gekk Sigurður Ingi á hólm við Sigmund Davíð og felldi hann úr formannsstóli, með 370 atkvæðum gegn 329.

Í kosningunum missti Framsóknarflokkurinn helming fylgis frá árinu 2013. Fékk 11,5 prósent atkvæða og átta þingmenn eða ellefu færri en áður. Að loknum kosningum var mynduð samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sú stjórn var skammlíf og sprakk haustið 2017. Eftir að boðað var til kosninga tilkynnti Sigmundur Davíð að hann hygðist stofna nýjan stjórnmálaflokk – Miðflokkinn. Á örfáum vikum tókst honum að bjóða fram í öllum kjördæmum. Miðflokkurinn fékk tæp 11 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Framsóknarflokkurinn hélt hins vegar áfram að tapa fylgi. Niðurstaðan – 10,7 prósent – var sú versta í sögu flokksins.

Framsóknarflokkurinn tók þátt í samsteypustjórn með Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum að loknum kosningum. Flokkurinn naut samstarfsins og styrkti stöðu sína verulega þegar gengið var að kjörborði 2021. Þingmönnum fjölgaði um fimm.

Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur aldrei verið fámennari og enginn þingmaður kemur af höfuðborgarsvæðinu. Þrír ráðherrar flokksins úr síðustu ríkisstjórn féllu í alþingiskosningum á liðnu ári.

Framsóknarflokkurinn beið hins vegar afhroð í þingkosningum 2024 þegar hann missti átta þingmenn og fékk aðeins 7,8 prósent atkvæða og fimm þingmenn. Flokkurinn náði þannig ekki að nýta sér góðan árangur í sveitarstjórnarkosningum 202,2 ekki síst í Reykjavík þegar flokkurinn fékk 18,7% atkvæða og fjóra borgarfulltrúa. Framsóknarflokkurinn gekk til liðs við sitjandi meirihluta í borgarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar en síðar tók Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna, við embætti borgarstjóra. Sá meirihluti sprakk.

Frá kosningum hefur ekkert birt yfir hjá Framsóknarflokknum. Í stjórnarandstöðu hefur flokkurinn barist í bökkum og mælst „í kringum mörkin á milli lífs og dauða þegar fylgið sveiflast á milli fjögurra og sex prósentustiga,“ svo vitnað sé til greinar sem Guðni Ágústsson skrifaði. Í ágúst var fylgið aðeins 4,5 prósent en 5,8 prósent í september samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup.

Hvar er riddarinn á hvíta hestinum?

Á næsta ári fagnar Framsóknarflokkurinn 110 ára afmæli í skugga verstu stöðu sem hann hefur nokkru sinni verið í. Ætli flokkurinn að endurheimta stöðu sína sem burðarafl í íslenskum stjórnarmálum þarf flokkurinn ekki aðeins nýjan og trúverðugan formann heldur uppstokkun í öllu starfi og málflutningi. Líklega er fyrsta skrefið að velja nýja formann til að leiða flokkinn inn í nýja tíma. En þeir framsóknarmenn sem bíða eftir riddara á hvítum hesti til að bjarga öll, lifa í pólitískum ævintýraheimi.

Að öðru óbreyttu stendur Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður og fyrrverandi ráðherra, sterkt að vígi í væntanlegri baráttu um formennsku í Framsóknarflokknum. Rætur hennar í flokknum standa djúpt og hún hefur lengi, leynt og ljóst, stefnt að því að leiða flokkinn. Vandi Lilju er sá sami og Jón Sigurðsson taldi að kæmi í veg fyrir að hann gæti sinnt starfi formanns með þeim hætti sem nauðsynlegt er: Lilja er utan þings eftir afhroð Framsóknarflokksins á liðnu ári.

Skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir hlaðvarpsþáttinn Komið gott getur til kynna að Lilja standi veikar meðal Framsóknarmanna en Willum Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem líkt og Lilja féll af þingi. Um 35 prósent vilja Lilju sem næsta formann en 41 prósent styðja Willum Þór. Hann hefur snúið sér að öðrum verkefnum sem forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Mjög hefur verið þrýst á Willum Þór að gefa kost á sér á flokksþinginu sem verður haldið í febrúar. Hann mun ekki vera afhuga formennsku en hann nýtur trausts og virðingar langt út fyrir raðir Framsóknarmanna eins og könnunin leiðir í ljós.

Samstarf Lilju og Sigurðar Inga hefur ekki verið náið og raunar oft komið upp núningur milli þeirra. Sigurður Ingi hefur eðlilega ekki viljað lýsa yfir stuðningi við einhvern umfram annan sem eftirmann sinn. Ræða Sigurðar Inga á miðstjórnarfundinum var hins vegar ekki traustyfirlýsing við Lilju, þvert á móti. Verkefnin á flokksþingi í febrúar næstkomandi eru skýr í huga fráfarandi formanns:

„Þar munum við samþykkja málefnaáherslur okkar og kjósa nýja- ferska – samhenta og öfluga forustu fyrir flokkinn okkar, nýja kynslóð til að byggja upp fyrir nýjan Framsóknaráratug.“

Ásmundur Einar Daðason, annar fyrrum ráðherra sem féll út af þingi og margir litu á sem arftaka Sigurðar Inga, hefur lýst því yfir að hann sé hættur í stjórnmálum. Vegna þessa sagði hann af sér sem ritari flokksins fyrir nokkrum vikum.

Þriðji kandídatinn er Ingibjörg Ísaksen þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún tók sæti árið 2021 og hefur verið formaður þingflokksins síðan. Ingibjörg þykir koma vel fyrir en hefur staðið í skugga Sigurðar Inga og ekki náð að skapa sér pólitíska sérstöðu innan þings eða meðal Framsóknarmanna. Könnun Maskínu sýnir að Ingibjörg stendur sterkt meðal Framsóknarmanna og ekki er ólíklegt að hún hafi mikil áhrif á það hver verði fyrir valinu. Ekki er ólíklegt að Ingibjörg sækist eftir varaformannsembættinu og er vandséð hver gæti ógnað henni. Það getur skipt Framsóknarflokkinn miklu að varaformaðurinn sé með aðgang að hljóðnema Alþingis ekki síst ef formaðurinn verður utan þings.

Fjórði hugsanlegi frambjóðandinn en jafnframt sá sem ólíklegastur er til að taka við formennskunni er Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri. Ólíklegur annars vegar vegna þess að hann á ekki langan feril að baki innan Framsóknar og hins vegar að hann þykir hafa haldið einstaklega klaufalega á málum í borgarstjórn, eftir stórsigur árið 2022. Miðað við skoðanakannanir mega Framsóknarmenn þakka fyrir að halda einum borgarfulltrúa í komandi sveitarstjórnarkosningum. Skoðanakannanir benda til að fylgið sé 4-5 prósent borið saman við 18,7 prósenta fylgi í síðustu kosningum.

Framtíð Framsóknarflokksins veltur á því hvort honum tekst að endurnýja forystu sína og skilgreina sig á ný í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn stendur á tímamótum – hefð vs. endurnýjun, landsbyggð og höfuðborgarsvæðið, gamaldags samvinnustefna og nútímaleg miðjustefna. Ný forysta þarf að endurheimta traust kjósenda, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og móta stefnu sem höfðar til breiðs hóps fólks í nútímasamfélagi. Það verður ekki einfalt en Framsóknarflokkurinn hefur áður sýnt að hann getur aðlagast og lifað af pólitísk umskipti.

Hvort Sigurði Inga verður að ósk sinni um að Framsóknarmenn velji sér nýja, ferska, samhenta og öfluga forustu, kemur í ljós. Hvort einhver þeirra sem hafa verið nefndir til sögunnar, falla að þessari skilgreiningu er í besta falli umdeilanlegt.