Foringjaræði á Íslandi

Árið 2025 var ár foringjaræðis, allt frá Kína, til Bandaríkjanna og Rússlands. Björn Bjarnason segir að hins vegar þurfi ekki að leita langt yfir skammt til að kynnast vaxandi foringjaræði. Það hafi skotið rótum hér á Íslandi.

Í dagbókarfærslu á gamlársdag segir Björn að upphaf foringjaræðis megi rekja til sumarsins 2022 þegar Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í Samfylkingunni:

„Völd Kristrúnar birtust fyrir þingkosningarnar 2024 þegar hún beindi spjótum að flokksbróður sínum, Degi B. Eggertssyni. Nú vill hún að Pétur Marteinsson verði oddviti flokksins í borgarstjórnarkosningunum.

Foringjaræðið setur svip á allar yfirlýsingar Kristrúnar um stjórnarsamstarfið við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins. Samstaða þeirra þriggja er stjórnin.

Viðreisn er flokkur í kringum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og eitt mál, þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB. Flokkur fólksins er eign formannsins, Ingu Sæland, sem treystir ekki lengur neinum í flokknum til að sitja við hlið sér í ríkisstjórn og stjórnar þremur ráðuneytum með blessun forsætisráðherrans.

Kristrúnu hentar einnig að hafa Þórunni Sveinbjarnardóttur, rúna öllu trausti, sem forseta alþingis og stjórna henni með bendingum úr ráðherrasæti sínu.

Miðflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn samkvæmt könnunum, er einnig foringjaflokkur. Þar dettur engum í hug að mæla gegn stofnanda flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann lætur sig stjórnmál líðandi stundar sífellt minna varða og hverfur á vit Fjölnismanna á 19. öld í hugleiðingum nú um áramótin.

Tveir elstu og rótgrónustu lýðræðisflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, eiga undir högg að sækja. Þar verða forystumenn að tileinka sér ný vinnubrögð og laga flokka að nýjum tímum.“