Eymdarvísitalan hækkar verulega
Eymdarvísitalan hefur hækkað verulega frá því að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tók við völdum undir lok síðasta árs. Í nóvember 2024 var vísitalan 7,3 stig en var komin í 10,7 í nóvember síðastliðnum. Haldist atvinnuleysi óbreytt milli nóvember og desember er vísitalan 11,5 stig, eða 2,9 stigum hærri en fyrir ári.

Eymdarvísitalan (misery index) er samtala árstíðarleiðrétts atvinnuleysis og verðbólgu. Henni er ætlað að sýna efnahagslega stöðu almennings á hverjum tíma. Þegar verðbólga eða atvinnuleysi eykst – eða bæði í senn – versnar efnahagsleg staða heimila, óháð því hvernig aðrir hagvísar líta út.
Arthur Okun, einn þekktasti hagfræðingur Bandaríkjanna á síðustu öld, setti vísitöluna fram á sjöunda áratugnum. Okun, sem var meðal annars efnahagsráðgjafi Lyndons B. Johnsons Bandaríkjaforseta, vildi búa til mælikvarða sem almenningur gæti skilið auðveldlega og um leið nýst í pólitískri og samfélagslegri umræðu sem væri ekki einokuð af hagfræðingum. Hann taldi að samspil atvinnuleysis og verðbólgu segði meira um raunverulegt ástand en hvor stærð fyrir sig. Að baki eymdarvísitölunni er sú hugmyndafræði að hagstjórn eigi fyrst og fremst að þjóna fólki, ekki jafnvægislíkönum eða fjárlagareglum.
Eymdarvísitala er einföld en ekki gallalaus og hafa margir hagfræðingar sett fram endurbætta útgáfu þar sem meðal annars er tekið tillit til vaxta og hagvaxtar á mann. En kostur vísitölunnar liggur einmitt í einfaldleikanum. Hún minnir á að hagkerfi sem lítur vel út á pappír getur samt verið eymdarhagkerfi fyrir almenning.
