Misskilningur menningarmálaráðherra

Enn einu sinni kemur í ljós hve meirihluti þingmanna hugsar vel um Ríkisútvarpið, sem er eini fjölmiðilinn sem nýtur hærri tekna þegar íbúum fjölgar eða dugmiklum einstaklingum dettur í hug að stofna hlutafélag. Þá hækka tekjur sjálfvirkt ef ekkert er gert.

Morgunblaðið greinir frá því að vegna fjölgunar einstaklinga sem þurfa að greiða útvarpsgjald hækki framlag til Ríkisútvarpsins um 50 milljónir króna á komandi ári miðað við það sem reiknað var með í fjárlagafrumvarpi sem er til meðferðar á Alþingi.

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Loga Einarsson menningarmálaráðherra hvort ekki hafi komið til greina að lækka útvarpsgjaldið sem hver og einn greiðir til að vega upp á móti þessari hækkun. Svar ráðherrans er athyglisvert:

„Nei, það þarf að gera með lagabreytingu og er stærra mál. Það kemur allt til greina en það var ekki hægt í þessari afgreiðslu.“

Ráðherrann hefur greinilega misskilið hvernig staðið er að ákvörðun um útvarpsgjald, en ætti þó að vita betur. Fjárhæð þess – eigi það á annað borð að taka breytingum – er ákvörðuð á hverju ári í svokölluðum bandormi sem er lagafrumvarp sem fylgir fjárlagafrumvarpi.

Bandormurinn (þingskjal 2 sjá hér: https://www.althingi.is/altext/157/s/0002.html) bíður annarrar umræðu. Í 21. gr. frumvarpsins er lagt til að útvarpsgjald hækki á næsta ári í 22.200 krónur úr 21.400. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt til nokkrar breytingar á frumvarpinu en þó ekki á fjárhæð útvarpsgjaldsins. Það væri hægur vandi fyrir menningarmálaráðherra og meirihluta þingsins að sameinast um lækkun útvarpsgjaldsins. Í raun er slík breyting einfaldari en flest annað sem liggur fyrir þinginu.