38 sinnum hærri veiðigjöld í Eyjum en í höfuðborginni
Samkvæmt gagnagrunni Fiskistofu eru reiknuð veiðigjöld á yfirstandandi ári um 11,2 milljarðar króna. Á hvern íbúa er veiðigjaldið margfalt hærra úti á landi en í Reykjavík. Þannig eru veiðigjöld sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum ekki aðeins hærri í krónutölu en í Reykjavík, heldur eru þau 38 sinnum hærri á hvern íbúa.
Svanur Guðmundsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins, birtir lista yfir álög veiðigjöld eftir póstnúmerum á bloggsíðu sinni. Þegar tekið er mið af upplýsingum Svans og reiknað út veiðigjald á hvern íbúa kemur í ljós að veiðigjald á hvern Eyjamann er liðlega 400 þúsund krónur en rúmlega 10 þúsund á hvern Reykvíking. Í Neskaupstað er gjaldið um 662 þúsund krónur og í Grindavík 683 þúsund.
Þessar upplýsingar renna stoðum undir þá fullyrðingu að veiðigjöldin séu í raun tekjuflutningur frá landsbyggðinni til ríkissjóðs. Svanur skrifar meðal annars:
„Fyrst er tekinn ríflegur hluti af rekstrarafkomu fyrirtækja í sjávarbyggðum, síðan er hluti þess sama fjár boðaður aftur sem ýmis „byggðaaðgerðar“-verkefni. Það er verið að skattleggja útgerðina og svo hrósa okkur fyrir að senda smá skammt af eigin peningum til baka í styrkjum.“
Svanur heldur því fram að áhrif skattlagningarinnar séu fyrirsjáanleg:
- minna svigrúm til fjárfestinga í skipum og vinnslum,
- viðkvæmustu fyrirtækin í minnstu plássunum falla fyrst.
- færri störf, minni þjónusta og hæg, stöðug fækkun fólks úti á landi.
Álagning veiðigjalda er því ekki aðeins skattastefna heldur einnig byggðastefna að mati Svans sem hvetur sjávarútvegsfyrirtæki til að sameinast um að birta upplýsingar um álagningu veiðigjalda eftir byggðalögum (póstnúmerum) og krefjast þess um leið að til framtíðar verði veiðigjöldin lögð á með þeim hætti að þau séu „sjálfbær tekjulind fyrir byggðirnar, ekki bara enn eitt gjaldið inn í svart gat ríkissjóðs“. Annars verður haldið áfram að veikja sjávarbyggðir með því að „skattleggja þær í drep“.
