Rússneskir auðmenn í liði Pútíns

Milljarðamæringar hafa aldrei verið fleiri í Rússlandi þrátt fyrir innrás Rússlands í Úkraínu og viðskiptaþvingana Vesturlanda. En á þeim 25 árum sem Vladímír Pútín hefur verið við völd hafa hinir ríku og voldugu í Rússlandi, þekktir sem ólígarkar, misst næstum öll sín pólitísku áhrif.

Í fréttaskýringu BBC segir að þetta séu góðar fréttir fyrir Rússlandsforseta. Hinir ofurríku hafa ekki snúið baki við Pútín þrátt fyrir viðskiptaþvinganir Vesturlanda. Með svipu og gulrót hefur Pútín gert ólígarkana að þöglum stuðningsmönnum.

Fyrrverandi milljarðamæringurinn og eigandi Tinkoff-bankans, Oleg Tinkov, veit nákvæmlega hvernig svipan virkar. Daginn eftir að hann gagnrýndi stríðið í Úkraínu höfðu Kremlverjar samband við stjórnendur bankans og gerðu þeim grein fyrir því að bankinn yrði þjóðnýttur nema öll tengsl við stofnanda hans yrðu rofin. Tinkov sagði í samtali við New York Times að hann hefði neyðst til að selja bankann og yfirgefa Rússland. Söluverðið var 3% af raunvirði og tapaði Tinkov um níu milljörðum dala.

Tímarnir hafa breyst. BBC segir að á árunum eftir upplausn Sovétríkjanna hafi sumir Rússar orðið stórkostlega auðugir með því að eignast risastór fyrirtæki sem áður voru í eigu ríkisins og með því að nýta tækifæri hins nýstofnaða kapítalisma í landinu. Nýfenginn auður færði þeim áhrif og völd á tímum pólitískra umbrota og þeir urðu þekktir sem ólígarkar.

Valdamesti ólígarki Rússlands, Boris Berezovsky, hélt því fram að hann hefði skipulagt valdatöku Pútíns árið 2000. Hann baðst síðar fyrirgefningar: „Ég sá ekki gráðugan harðstjórann og valdaræningjann í honum, manninn sem myndi fótum troða frelsið og stöðva þróun Rússlands,“ skrifaði Berezovsky árið 2012.

Rúmu ári eftir afsökunarbeiðnina fannst Berezovsky látinn við dularfullar aðstæður í útlegð í Bretlandi.

Nokkrum klukkustundum eftir að hafa fyrirskipað allsherjarinnrás í Úkraínu í febrúar 2022, boðaði Pútín rússneska auðmenn á sinn fund í Kreml. Flestir gerðu sér grein fyrir að innrásin yrði þeim kostnaðarsöm en þeir mótmæltu Rússlandsforseta ekki. „Ég vona að við þessar nýju aðstæður munum við vinna jafn vel saman og áður,“ sagði Pútín við milljarðamæringana. Einn fréttamaður sem var viðstaddur fundinn sagði auðmennina hafa verið föla og svefnlausa.

Aðdragandinn og innrásin varð dýrkeypt. Samkvæmt tímaritinu Forbes fækkaði milljarðamæringum úr 117 í 83 vegna stríðsins, viðskiptaþvingana og veikari rúblu. Samanlagt töpuðu þeir 263 milljörðum dala – eða 27% af auði sínum hver að meðaltali.

En síðan hefur hagurinn vænkast fyrir marga enda gríðarlegur ávinningur fólginn í því að vera hluti af stríðshagkerfi Pútíns. Ríkuleg útgjöld vegna stríðsins ýttu undir hagvöxt upp á meira en 4% á ári í Rússlandi árin 2023 og 2024.

Árið 2024 hagnaðist yfir helmingur milljarðamæringa Rússlands beint eða óbeint af innrásinni m.a. með því að útvega hernum birgðir.

Samkvæmt auðmannalista Forbes hefur fjöldi milljarðamæringa aldrei verið meiri eða 140. Samanlagður auður þeirra er 580 milljarðar dala.

Á sama tíma og Pútín leyfir tryggum stuðningsmönnum að hagnast hefur hann stöðugt refsað þeim sem hafa neitað að fylgja línunni.

Frá innrásinni hafa næstum allir ofurríkir Rússar haldið sig til hlés og þeir fáu sem hafa opinberlega andmælt henni hafa þurft að yfirgefa land sitt og misst stóran hluta af auði sínum.

BBC segir að ríkustu menn Rússlands gegni lykilhlutverkum í stríðsrekstri Pútíns og margir þeirra hafa sætt viðskiptaþvingunum Vesturlanda.

En ef Vesturlönd vildu gera þá fátækari og snúa þeim gegn Kreml hefur það mistekist, miðað við áframhaldandi auð og skort á andófi meðal rússneskra milljarðamæringa.

Ef einhver þeirra hefði íhugað að flýja til Vesturlanda með milljarða sína gerðu viðskiptaþvinganirnar það ómögulegt.

„Vesturlönd gerðu allt sem hægt var til að tryggja að rússneskir milljarðamæringar fylktu liði undir fánanum,“ segir Alexander Kolyandr hjá Center for European Policy Analysis (CEPA).

„Það var engin áætlun, engin hugmynd, engin skýr leið fyrir neinn þeirra til að yfirgefa skútuna. Eignir voru settar í bann, reikningar frystir, eignir gerðar upptækar. Allt þetta hjálpaði Pútín í raun að virkja milljarðamæringana, eignir þeirra og peninga og nota það til að styðja við rússneska stríðshagkerfið,“ segir hann við BBC.

Brottflutningur erlendra fyrirtækja í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu skapaði tómarúm sem fljótt var fyllt af kaupsýslumönnum sem voru vinveittir Kreml og fengu að kaupa upp mjög ábatasamar eignir á spottprís.

Þetta skapaði nýjan „her áhrifamikilla og virkra stuðningsmanna“ sem hafa beinan hag af áframhaldandi átökum milli Rússlands og Vesturlanda.